“Í vor var kynnt vaxtarstefna með ríkari áherslu á vöxt, þróun og fjárfestingu í nýjum samfélagslega mikilvægum eignaflokkum.”
Guðni Aðalsteinsson, forstjóri
Kraftmikið upphaf nýs vaxtarskeiðs
Árið 2024 markaði upphaf nýs vaxtarskeiðs Reita. Vegferðin var kortlögð á vormánuðum og ný stefna kynnt markaðinum í maí. Stefnan nær til næstu fimm ára og felur í sér aukinn vaxtarhraða með ríkari áherslu á þróunarverkefni þar sem sjálfbærni er í forgrunni ásamt fjárfestingu í fjölbreyttari eignaflokkum. Í nýjum eignarflokk er sérstaklega horft til samfélagslegra eignaflokka þar sem þörfin er brýn.
Undirstaða vaxtarstefnunnar er traustur grunnur sem Reitir hafa í gegnum árin byggt upp og endurspeglast í sterku sjóðsstreymi, fjölbreyttum fasteignum, traustum viðskiptasamböndum, umfangsmiklu og stóru eignarsafni, og öflugum mannauði.
Ný vaxtarstefna tekur mið af þessum trausta grunni og fjölbreyttra sóknarfæra en ekki síður einstakri stöðu Reita til þess að sækja fram af krafti í uppbyggingu fasteigna og skapa verðmæti fyrir hagaðila og samfélagið.
Vöxtur og arðsemi
Framgangur vaxtaráætlana hefur verið umfram væntingar. Fjárfest hefur verið fyrir um 18,1 ma.kr. á árinu, en markmiðið kvað á um 11 ma.kr. fjárfestingu. Líkt og lagt var upp með er fjárfestingin annarsvegar í þróun og endurbótaverkefnum innan eignasafnsins og hinsvegar í arðbærum fasteignakaupum. Rúmlega 18.000 fermetrar í fjölbreyttum eignum bættust við á hagstæðu verði á árinu.
Markviss skref í samræmi við vaxtarstefnu félagsins stuðluðu að góðum árangri félagsins á árinu. Tekjur ársins numu 16.224 m.kr. sem eru aukning um 8,8% milli ára, og hagnaður ársins rúmlega tvöfaldaðist milli ára og nam rúmum 15,4 mö.kr. og arðsemi eigin fjár nam 23,4%.
10.972 m.kr.
Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu
Fasteignaþróun í takt við þarfir samfélagsins skapar verðmæti
Samfélagið þróast hratt, og talsverðar breytingar á aldursamsetningu þjóðarinnar eru fyrirséðar. Samkvæmt nýlegri greiningu KPMG kallar öldrun samfélagsins á 3.700 ný hjúkrunarrými næstu 15 árin til þess að mæta ört vaxandi þörf og koma til móts við langa biðlista og erfiða stöðu margra sem þurfa á slíkum rýmum að halda en komast í dag hvergi að.
Sterk fjárhagsleg staða, yfirgripsmikil þekking, og farsæl reynsla Reita í umfangsmiklum verkefnum gerir félaginu kleift að skipa sér í burðarhlutverk í þeirri uppbyggingu og leggja sit af mörkum.
Vinnan er þegar hafin. Undirbúningur umbreytingar húsnæðisins að Nauthólsvegi 50 í nútímalegt 87 herbergja hjúkrunarheimili er í fullum gangi ásamt viðræðum við Framkvæmdasýslu ríksins um þróunina. Þá hafa Reitir og Íslenskar fasteignir undirritað rammasamning um uppbyggingu fimm hjúkrunarheimila en það fyrsta verður 80- 100 rýma heimili í Hamraneshverfi í Hafnarfirði.
Húsnæðisþörfin er ekki síður brýn og þar munu Reitir leggja lóð sín á vogarskálarnar. Reitir eru með um 600 íbúðir í þróun, stærsti hluti þeirra er á Kringlureitinum, en einnig eru um 85 íbúðir í þróun í Skeifunni og á miðlægum reit við Hallarmúla.
Gott samstarf Reita og viðskiptavina er grundvöllur velgengni
Um 400 framsækin fyrirtæki treysta Reitum fyrir sínum húsnæðismálum. Í því felst kjarnastarfsemi Reita.
Eitt af fjórum áherslusviðum nýrrar vaxtarstefnu er framúrskarandi rekstur og eru markmið félagsins á því sviði að bæta upplifun viðskiptavina og þrefalda þjónustutekjur. Mikilvægt skref var stigið á árinu þegar þjónusta var skilgreind sem fjórða stoð vaxtar og arðsemi hjá Reitum, en kaupa, byggja og þróa eru hinar þrjár stoðirnar. Félagið vinnur nú að þróun framboðs þjónustulausna sem mun skapa nýja tekjulind meðal annars með því að virkja ónýtta innviði í og við fasteignir félagsins. Að sama skapi mun aukið þjónustuframboð auka ánægju viðskiptavina sem geta leitað til Reita eftir klæðskerasniðnu húsnæði og hentugrar þjónustu í sínu húsnæði.
Bruninn í Kringlunni s.l. sumar var áfall fyrir marga viðskiptavini okkar. Kraftmikið og faglegt starf viðbragðsaðila, rekstraraðila og starfsfólks verslana varð til þess að engin slys urðu á fólki og hægt var að draga úr tjóni. Í kjölfar hreinsunarstarfs hófst uppbygging og okkur tókst, með góðu samstarfi við rekstraraðila, hönnuði og verktaka að taka vel á móti gestum Kringlunnar í endurnýjuðum glæsilegri verslunum um haustið og fyrir síðustu jól. Vil ég færa öllum sem komu að þessu máli sérstakar þakkir fyrir skjót viðbrögð og gott samstarf.
Sterkur grunnur stökkpallur vaxtar og framfara
Síðastliðið vor urðu forstjóraskipti hjá Reitum. Ég tók við sterkum rekstri, fjölda endurbótaverkefna í vinnslu og þróunarverkefna á undirbúningsstigi. Það hefur verið virkilega ánægjulegt að fá að kynnast samstarfsaðilum, fjárfestum, stjórn, viðskiptavinum og samstarfsfólki félagsins, og vil ég þakka þeim öllum fyrir farsæl samskipti og gott samstarf á árinu 2022.
Sóknarfæri og verðug verkefni varða leiðina sem framundan er. Með gildi og vaxtarstefnu félagsins að leiðarljósi höldum við áfram að fjárfesta og byggja upp að kraft—hagaðilum og samfélaginu til bóta.