Sjálfbærnistefna Reita
Árangur af rekstri Reita felst í fleiru en góðri fjárhagslegri afkomu. Velgengni félagsins til lengri tíma ræðst einnig af því hvernig til tekst að glæða grunngildi félagsins; jákvæðni, fagmennsku og samvinnu, lífi í daglegri starfsemi þess og hvernig stjórnendur og starfsfólk axla samfélagslega ábyrgð með siðferðilega ábyrgri, gegnsærri og jákvæðri háttsemi í störfum sínum.
Samfélagsleg ábyrgð Reita felur meðal annars í sér að félagið:
stuðlar að sjálfbærri þróun í umhverfis-, félags- og efnahagsmálum með heilbrigði og velferð samfélagsins að leiðarljósi
virðir gildandi lög og reglur og samræmir starfsemi sína alþjóðlega viðtekinni háttsemi
miðar að gagnkvæmni með því að skapa sameiginlegt virði fyrir alla hagsmunaaðila og samfélagið í heild
kemur auga á, fyrirbyggir og dregur úr hugsanlegum skaðlegum áhrifum af starfsemi sinni
Sjálfbærniupplýsingagjöf Reita 2024
Reitir eru Nasdaq ESG Transparency Partner og sem slíkur leggur félagið áherslu á gegnsæja upplýsingagjöf og hækkun viðmiða í umhverfismálum. Sjálfbærniupplýsingagjöf er unnin í samræmi við UFS-leiðbeiningar Nasdaq og skiptist í þrjá meginkafla; umhverfi (E), félagslega þætti (S) og stjórnarhætti (G) auk þess sem nú eru í fyrsta sinn birtar upplýsingar í takt við flokkunarreglugerðina (EU Taxonomy).
Í ár birta Reitir ítarlegar upplýsingar um sjálfbærni í árssreikningi félagsins í kaflanum Ófjárhagsleg upplýsingagjöf.
Sjálfbærni eitt af fjórum áherslum í vaxtarstefnu
Í nýrri vaxtarstefnu félagsins eru fjögur áherslusvið skilgreind, og eitt þeirra snýr að sjálfbærni. Félagið hefur sett sér tvö lykilmarkmið á því sviði:
Reitir stefna á kolefnishlutleysi 2040: kolefnislosun lækki um þriðjung á fimm árum.
Fjölbreytileiki: mest 60% af sama kyni á hverju stigi skipurits.
Árangur í umhverfismálum
Talsverður árangur náðist í umhverfismálum á árinu. Kolefnislosun Reita dróst saman um 18% á milli ára. Losun í umfangi 1 eykst á meðan losun í umfangi 2 og 3 dregst saman.
Losun frá úrgangi hefur talsverð áhrif á þennan árangur en heildarúrgangur frá félaginu er minni en árið áður. Kolefnislosun frá úrgangi í framkvæmdaverkum dróst saman um tæplega helming eða 49% milli ára. Bætt meðhöndlun sorphirðuaðila vegur talsvert í þeirri þróun en Reitir leggja einnig áherslu á flokkun úrgangs í framkvæmdaverkum sem er stærsti úrgangsstraumur frá félaginu. Á árinu var flokkunarhlutfall úrgangs vegna stærstu endurbóta- og nýbyggingarverkefnum 82%. Auk þess leggja Reitir upp með að koma innanstokksmunum og byggingarefni í endurnýtingu þegar framkvæmdir og endurbætur á húsnæði eiga sér stað og styðja þannig við hringrásarhagkerfi fyrir slíkt efni.
Fjölbreyttari raddir skila árangri og ánægju
Markmið Reita um jöfn kynjahlutföll á öllum stigum skipuritsins byggir á trú félagsins um að fjölbreyttari raddir skili betri ákvarðanatöku og vinnuframlagi til lengri tíma. Markmiðinu er þegar náð þegar horft er til heildarstarfsmannafjölda og hlutfalla almenns starfsfólks, en stjórnendur eru yfir 60% karlkyns enn sem komið er.
Stjórnarhættir
Reitir hlutu á árinu viðurkenningu VÍ, SA, Nasdaq og Stjórnvísi sem fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum. Reitir hafa hlotið viðurkenninguna árlega síðan 2015.
Okkar heimsmarkmið
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna er framkvæmdaáætlun í þágu mannkynsins, jarðarinnar og hagsældar. Með stefnu Reita um samfélagslega ábyrgð einsetjum við okkur að stíga afgerandi skref til sjálfbærrar framtíðar innan þeirra málaflokka sem snúa að okkar starfsemi.
Starfsfólk Reita fór í sameiningu yfir heimsmarkmiðin og skoðaði starfsemina í samhengi við framkvæmdaáætlunina. Niðurstaða þeirrar vinnu var að Reitir geti helst beitt sér í flokkunum (8) Góð atvinna og hagvöxtur, (11) Sjálfbærar borgir og samfélög og (12) Ábyrg neysla og framleiðsla.
Góð atvinna og hagvöxtur - stuðla að sjálfbærum hagvexti; arðbærum og mannsæmandi atvinnutækifærum. Reitir leggja áherslu á jöfn laun og jafnan rétt einstaklinga til atvinnu í stefnu sinni auk þess sem lögð er áhersla á að mannréttindi séu virt, svo sem réttindi á vinnumarkaði, réttur til félagafrelsis og góðs aðbúnaðar, og nær sú krafa til viðskiptavina félagsins og verktaka sem sinna verklegum framkvæmdum á vegum þess.
Sjálfbærar borgir og samfélög - Gera borgir og íbúðasvæði örugg, sjálfbær og öllum aðgengileg.
Með ábyrgu samvali leigutaka á starfssvæðum Reita vill félagið stuðla að bættu borgarumhverfi og minni þörf fyrir mengandi samgöngur. Leitast er við að auka kolefnisjafnandi gróður við bílastæði og á öðrum óbyggðum svæðum í samráði við leigutaka. Með þátttöku í samtökunum Grænni byggð styðja Reitir faglega umræðu og rannsóknir á sviði vistvæns skipulags og mannvirkjagerðar auk þess að stuðla að fræðslu um málefnið.
Ábyrg neysla og framleiðsla - Tryggja sjálfbær neyslu- og framleiðslumynstur.
Með þeim viðmiðum sem sett eru fram í stefnu Reita hvað varðar umhverfismál vilja Reitir m. a. leggja áherslu á ábyrga neyslu og framleiðslu. Reitir bauð fyrst íslenskra fasteignafélaga upp á græna leigusamninga á árinu 2013. Í slíkum samningum eru leigutakar m. a. hvattir til að velja umhverfisvottaðar rekstrarvörur og velja umhverfisvænni kosti þegar kemur að rekstri húsnæðis auk þess að skrá orku- og vatnsnotkun og leitast við að draga úr sóun.
Við vistvottum okkar helstu þróunarverkefni
Með því að huga vel að öllum þáttum sjálfbærni í upphafi trúum við því að við séum að skapa hverfi og byggingar sem standist tímans tönn. Meginhluti kolefnisspors bygginga myndast á byggingartíma þeirra. Með því að einblína á þann þátt höfum við mest áhrif.
Hvað er BREEAM?
BREEAM er eitt víðtækasta og þekktasta vistvottunarkerfi fyrir byggingar í dag sem hvetur bæði til sjálfbærrar byggingarhönnunar sem og vistvænnar stjórnunar á verk- og rekstrartíma. BREEAM vottunarkerfið notar viðurkenndan kröfuramma við frammistöðumat á hönnun, verktíma og rekstrartíma bygginga en tekið er tillit til fjölmargra þátta, allt frá vistfræði til orkunotkunar. Þessir þættir eru metnir í níu umhverfisflokkum sem hafa mismikið vægi, en þeir eru (í röð mikilvægis, mikilvægist þátturinn fyrst og koll af kolli): orkunýting og orku framleiðsla, byggingarefni, heilsa og gæði innilofts, úrgangur, gæða-og umhverfisstjórnun, landnotkun og vistfræði, mengun, samgöngur, vatnsnotkun.
Korputún
Fyrsta BREEAM vottaða atvinnuhverfið á Íslandi. Fyrsta skref vottunar er þegar staðfest.
Með því að BREEAM Communities votta skipulagið er tryggt að hugað sé að sjálfbærum áherslum í skipulagsvinnu strax í upphafi með vel skilgreindum viðmiðum um samfélagsleg, umhverfisleg og efnahagsleg gæði.
Staðfesting á fyrsta skrefi BREEAM Communities vottunar felst í því að öll grunngögn sem unnin voru fyrir deiliskipulagið hafa verið samþykkt og hefur Korputún því fengið „Interim Assessment“ eða bráðabirgðavottun.
Grunngögnin voru samþykkt af BREEAM án athugasemda sem staðfestir gæði gagna og vandaða vinnu matsaðila.
Nánari upplýsingar um Korputún á www.korputun.is
Heilsusamlegt umhverfi
Grænt vinnuumhverfi veitir samkeppnisforskot í rekstri þar sem fólk er mikilvægasti framleiðsluþátturinn. Góðar gönguleiðir, útsýni og hönnun sem tekur mið að gangandi vegfarendum dregur úr streitu, og eykur vellíðan.
Varðveisla lífríkisins
Korputún býr yfir fjölbreyttu lífríki: skógrækt er í Úlfarsfelli, í Korpu er laxveiði og fjölbreytt fuglalíf er í kringum ána. Skipulagsskilmálar gera ríka kröfu um gróðurþekju og minnst 80% af þökum byggðarinnar skulu vera lögð gróðurþekju.
Hugað að vatnafari
Vatn úr Úlfarsfelli verður áfram veitt á yfirborði, í kringum og innan hverfissins, þannig verður sem minnst rask á vatnsmagni sem skilar sér af fjallinu niður í ánna. Stór hluti yfirborðs verður gegndræpur og vatni af hörðu yfirborði verður veitt í gróðurbeð og safntjarnir sem sía og hreinsa vatnið og skila því á náttúrulegan hátt niður í grunnvatn og í Korpu.
Önnur verkefni í BREEAM vottunarferli
Kringlureitur, 1. áfangi
Fyrsti áfangi íbúðauppbyggingar á Kringlureitnum er skipulagður samkvæmt BREEAM Communities vistvottunarstaðlinum en staðallinn kveður á um ítarlegt samráð við nærsamfélagið og aðra hagsmunaaðila. Umferð akandi, hjólandi og gangandi verður gert jafnhátt undir höfði með sérstakri áherslu á gönguvænt umhverfi.
Uppbygging Hyatt Centric við Laugaveg
Framkvæmdir við hótelið eru unnar út frá BREEAM Construction staðlinum. Húsið er að hluta til reist á eldri grunni og nýtist þannig sumt byggingarefni sem var þegar til staðar.
Verkefni sem hafa þegar hlotið BREEAM vottun
Orkureitur
Reitir eru fyrrum eigendur Orkureitsins og fóru fyrir skipulagsgerð á reitnum samkvæmt BREEAM staðlinum áður en hann var seldur öðrum eiganda.
Skaftahlíð 24
Við Skaftahlíð 24 eru tvær byggingar, samtals um 5.000 fermetrar, sem hýsa aðalskrifstofur Landspítala. Húsin voru endurnýjuð vandlega árið 2019 og hlaut sú framkvæmd BREEAM Refurbishment vottun.
Verkefni í þágu samfélags og umhverfis
Kolefnisjafnað með Súrefni vottaðar einingar
Losun ársins var kolefnisjöfnuð með kaupum á vottuðum kolefniseiningum hjá Súrefni vottaðar einingar, en mótvægisaðgerðirnar stuðla að metanföngun, og sjálfbærri orku á Indlandi en auk þess styðja Reitir við samstarfsverkefni Súrefnis og Ísorku um kolefnisvottun rafhleðslustöðva fyrir rafbíla á Íslandi.
Öll kolefnislosun, að undanskilinni losun vegna Reita þjónustu, sem tengist fasteignum sem Reitir hafa ekki umráð yfir, var kolefnisjöfnuð.
Nánar um Súrefni vottaðar einingar á www.surefni.is
Aukin fjölbreytni í atvinnulífinu með Specialisterne í Síðumúla
Reitir hafa stutt Specialisterne með húsnæði í Síðumúla í áratug. Markmiðið er að aðstoða ungt fólk á einhverfurófi við að komast á vinnumarkaðinn. Starfsemin í byggist á því að einstaklingarnir mæta daglega og fá aðstoð við að þjálfa upp styrkleika sína ásamt því að tekið er á veikleikum. Lokamarkmiðið er atvinnuþátttaka einstaklinganna og fer ríflega helmingur í vinnu. Aðrir fara í áframhaldandi nám eða önnur úrræði.